Góð aðsókn á sýningar

Góð aðsókn hefur verið á sýningar Safnahússins síðustu mánuði og er fjöldi gesta á fyrri helmingi þessa árs farin að nálgast tímabilið fyrir Covid.  Allnokkuð hefur verið um heimsóknir skólahópa og almennra hópa á grunnsýningarnar tvær, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna. Einnig eru erlendir ferðamenn farnir að koma í auknum mæli auk innlendu ferðamannanna sem hafa verið duglegir að koma. Sjá nánar á safnahus.is

Ný stjórn NMB

Kosningar í stjórn Nemendafélags Menntaskóla Borgarfjarðar fyrir skólaárið 2021 – 2022 fóru fram fyrir skemmstu. Nýju stjórnina skipa þau Daníel Fannar Einarsson formaður, Elinóra Ýr Kristjánsdóttir ritari, Vilhjálmur Ingi Ríkharðsson skemmtanastjóri og Þórunn Sara Arnarsdóttir ritari. Í haust verður svo kosið um einn meðstjórnanda úr hópi nýnema. Við óskum nýrri stjórn innilega til hamingju með kjörið og hlökkum til samstarfsins.

Nemendur í Skólahreysti

Undankeppni í Skólahreysti 2021 lauk fyrir skömmu. Keppendur úr Borgarnesi voru þau Ísak Atli Árnason, Díana Björg Guðmundsdóttir, Kolbrún Katla Halldórsdóttir og Reynir Jóngeirsson. Varamenn voru Dagbjört Rós Jónasdóttir og Helgi Samúelsson. Allir stóðu keppendur sig með prýði en okkar fólk náði ekki áfram að þessu sinni. Úrslitakeppnin fer fram þann 29. maí. Að sögn þjálfara liðsins, Jóhannesar Magnússonar, munu Borgnesingar mæta galvaskir og reynslunni ríkari til keppni að ári. Sjá nánar á grunnborg.is